Fall Íslands

Það ættu allir að kynna sér Íslendingasögurnar, jafnvel þó svo að þeir telji þær að mestu munnmæli og þjóðsögur. Sturlungu ættur allir að lesa frá orði til orðs, sér til skilnings. - Og þá því sem næst frumheimildir án túlkunar annarra. Sturlunga-saga er að mestu sett saman af samtímaheimildum margra rita, skrifuðum af mönnum sem voru þátttakendur atburða, -s.s. Sturla Þórðarson.

Samkvæmt Íslendingasögunum urðu siðaskipti árið 1000. Þá er Þorgeir Ljósvetningagoði lögsögumaður alþingis sagður hafa legið undir feldi og komist að þeirri niðurstöðu að landsmenn skildu hafa ein lög og einn sið. Þetta geðrist eftir að upp risu deilur milli kristinna og heiðinna. Áður ríkti trúfrelsi á Íslandi, en lög og uppbygging þjóðveldis var ekki að Rómar-kristnum sið.

Það má segja að algert trúfrelsi hafi ríkt fyrir siðaskiptin, sem var þá í reynd afnumið, þó svo að í orði mætti ástunda hinn gamla sið á laun. Þetta innflutta yfirboð siðarins átti eftir að verða Íslendingum dýrkeypt, lagalega, siðferðilega, -og síðast en ekki síst fjárhagslega.

Árið 1056 var fyrst settur biskupsstóll á Íslandi. Erkibiskupsstóll var settur í Niðarósi árið 1122, sem réði fyrir hönd Páfa, yfir biskupsdómi á Íslandi. Biskupar gerðu sig gildandi lagalega með siðferðið að vopni, jafnvel þó enn væri svo að alþingi setti lögin.

Svo var komið um 1220 að ásælni erlends valds til lagasetningar og skattlagningar hér á landi var orðin það yfirgengileg að út braust borgarastyrjöld kennd við Sturlunga. Hver stórorrustan rak aðra þar til Íslendingar, -vígamóðir, töpuðu sjálfstæði sínu.

1253: Samþykkt alþingis um gildi landslaga gagnvart guðslögum ef þau greinir á.

1256: Biskup og höfðingjar fá bændur til að gangast undir skatt til konungs.

1260: Konungur sendir erindreka sína til íslands. Gissur Þorvaldsson lætur Rangæinga sverja sér og Hákoni konungi trúnaðareiða.

1262: Hákoni konungi svarið land og þegnar, allt nema Austfirðingafjórðungur og Rangárþing.

1263: Oddverjar sverja konungi skatt (Rangárþing).

1264: Ormur Ormsson sver Noregskonungi skatt fyrir hönd Austfirðingafjórðungs. Þorvarður Þórarinsson Austfirðingagoði, gefur ríki sitt á vald konungs, -síðasti goðinn.

1272: Járnsíða, ný lög taka gildi á Íslandi, allt nema erfðafjárbálkurinn (um eignarétt á landi).

1273: Dæmt mál Oddastaðar og Vatnfjarðar, -í Björgvin, Noregi.

1275: Kristinn réttur lögtekinn á alþingi.

1281: Jónsbók lögtekin sem ný lög á Íslandi.

1286: Herútboð konungs af Íslandi.

Báðar þjóðir, Íslendingar, -og Norðmenn síðar, máttu bíta í það súra epli að tapa sjálfstæði sína og verða skattlendur erlends valds um aldir.

Það má segja að gullaldir Íslandssögunnar hafi verið tvær, -á tímum fullveldis, bæði í þjóðveldi og lýðveldi, en þeirra á milli hörmunga hokur þar sem litlu munaði að þjóðin færist úr hungri. Þegar hvorki gekk né rak við að komast út úr hálfhrundum moldarkofum í 650 ár, sama hvort gjaldmiðillinn var Skandínavískur ríkisdalur eða Dönsk krónan.

Það var ekki fyrr en með fullveldinu 1918 og íslensku krónunni 1919 að Íslendingar komust aftur á braut til fyrri efna, -sem rík þjóð í eigin landi sinna auðlinda. Árin án fullveldis með erlendan sið, voru hörmungin ein, -en aldrei vantaði fagurgalann um siðinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Þetta er svipað og með Konungasögurnar og Króníkurnar; sögur af siðfalli, svo við getum varast, en við lærum ekki af Sögunni. Ekki einu sinni daginn eftir.

Guðjón E. Hreinberg, 25.6.2025 kl. 21:37

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Þetta er alveg meiriháttar góður pistill og auðveldur lestrar að auki, fyrir alla. Ég hafði ekki gert mér svona vel grein fyrir því hvað Sturlungaöldin var tengd sjálfstæðisbaráttu Íslendinga fyrr á tímum. Einhvernveginn var manni kennt í skólum að þetta hafi verið einhverjir vitleysingar sem gátu ekki hamið skap sitt og hafi ekki getað ekki stjórnað ofbeldishneigðum sínum. 

Hér er það rakið skipulega hvernig þetta voru ekki minni sjálfstæðismenn heldur en Jón Sigurðsson og Jónas Hallgrímsson. Það er afrek.

Já það má segja að þetta sé taka 3, ESB og Kristrúnarstjórnin. 

Já trúfrelsið var dýrmætt, og það hvarf með kristnitökunni. Enda er það væntanlega rétt að Ingólfur Arnarson og norræna landnámið hafi snúizt um trúfrelsi og persónulegar deilur, að forðast austræn og suðræn áhrif sem teygðu sig norræn. Þannig mun víkingaöldin kannski öll hafa orðið til.

Það er einnig gott fyrir sagnfræðinga að lesa þennan pistil. Hér sést það svart á hvítu hvað þetta tekur langan tíma, að koma á breytingum, skipta um sið, innleiða erlendar reglugerðir.

Og eins og nú á tímum þá er látið í veðri vaka að svona breytingar séu framfarir. Þeir sem efast berjast oft við ofureflið.

Ritöldin hófst þó með kristninni þannig að ýmislegt vænlegt og jákvætt fylgdi henni. En eins og með ESB, auknar kvaðir, og minni lífsgæði undir erlendum herrum, og ríkjum.

Síðan fór veður kólnandi. Litla ísöldin.

Á víkingatímunum voru Íslendingar frægir við erlendar hirðir. Þeir voru vinir konunga og sungu þeim lof í Írlandi, Bretlandi og víðar. Ísland gaf af sér fræg skáld, eins og Björk, Sigur rós og Bubba víkingaaldarinnar.

Við urðum þrælar og ambáttir með tímanum, útkjálki, þaðan sem engra gæða var að vænta en aðeins ölmustu og vesældóms!

Ingólfur Sigurðsson, 25.6.2025 kl. 21:38

3 identicon

Íslandssagan í hnotskurn,

sögð á einfaldan og kjarnyrtan hátt.

Takk fyrir pistilinn.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 25.6.2025 kl. 22:00

4 Smámynd: Guðni Björgólfsson

Sæll Magnús.

Þetta er grepilega góð faersla og hún holl og góð hverjum og einum.

Tek heilshugar undir hvert orð þitt hér.

Guðni Björgólfsson, 25.6.2025 kl. 23:53

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka fyrir góðar athugasemdir, -já sagan á það til að fara í hring þó svo að hún lendi ekki á nákvæmlega sama stað. Þess vegna getur verið snúið að læra af henni.

Vissulega er Sturlunga að miklu leiti um vígaferli og óhugnað á milli frænda, en ástæðan var að hluta til græðgi og að hluta innflutt, þar sem spilað var á græðgina.

Þegar ég tók mig til og las Sturlungasögu tók það mig meira en ár, sagan er full af sögum inn í sögunni og til að komast til botns í atburðarásinni þarf að kanna ættartengsl sögupersóna. Allt Ísland er undir.

Ekki sakar að setja sjálfan sig inn í ættartölur sem eru á islendingabok.is og sjá frá hvaða Sturlungum blóðið rennur. Sennilega er Sturlunga ein besta heimildin sem ættfræðin í islendingabog.is byggir á.

Um sumarið meðan á lestrinum stóð fór ég Sturlungaslóðina. Eyjafjörð, Skagafjörð, Trékyllisvík, Reykholt, um Bláskógaheiði í Keldur osfv. Setti mig inn í staðhætti og stórviðburði aldarinnar.

Ég setti þá hér inn blogg um okkur afkomendur Sturlunga sem er kannski meira í ætt við það sem Sturlungasaga er þekktust fyrir, stórorrustur og vígaferli.

https://magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/2240320/

Magnús Sigurðsson, 26.6.2025 kl. 13:04

6 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Sæll Magnús. Takk fyrir góða samantekt. Sjálfur hef ég bent á - og leyfi mér að gera það hér aftur - að Gamli sáttmáli átti að tryggja verslunarhagsmuni Íslendinga, sbr. ákvæði þar um skipakomur til landsins. Aðeins 9 árum síðar fór konungsvaldið að þvinga lögum sínum upp á Íslendinga (með Járnsíðu 1271) og svo með ögn mildari nálgun 1281 þegar Jónsbók var lögtekin hér. Sömu stef endurtaka sig nú: EES var kynntur sem viðskiptasamningur 1993 en nú er talað um hann sem hornstein einhvers konar pólitísks sambands okkar við ESB. 

Arnar Þór Jónsson, 26.6.2025 kl. 14:52

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir góða athugasemd Arnar Þór, -já sömu stef endurtaka sig í með EES.

Það er rétt að minnast þess hvað Íslendingar töldu sig fá fyrir fullveldið og hvernig það var svo haldið.

Eins hvernig lögin tóku örum breytingum. Ef ég man rétt þá var það nafni minn lagabætir sem átti hlut að máli ásamt íslenskum höfðingjum að bæta  Járnsíðu með ögn af mildi í Jónsbók.

En áður en yfirlauk og nýtt fullveldi leit dagsins ljós, hafði þjóðin tekið bæði við Stóradómi og Vistarbandinu að utan sem réttarbót, -og þjóðvísan orðin þá þessi.

Vögum, vögum, vögum vær

með vora byrði þunga,

af er nú sem áður var

í tíð Sturlunga

og í tíð Sturlunga.

Magnús Sigurðsson, 26.6.2025 kl. 17:20

8 Smámynd: Loncexter

Lög Guðs munu landið næra, en heiðingja lög til skrattans færa.

Loncexter, 27.6.2025 kl. 03:49

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það má segja sem svo Loncexter, -en þegar búið er að búa lög guðs í pólitískan búning þá er skrattanum skemmt.

Mig grunar að stór hluti Íslendinga hafi haft guðs lög að leiðarljósi allt frá landnámi og þekkt kenningu Krists þó svo að þar hafi ekki verið um Rómar-kristni að ræða.

Það má í því sambandi benda á Auði djúpúðgu, Helga magra og marga fleiri. -Svo náttúrulega huldusögurnar af Írskri-kristni.

Magnús Sigurðsson, 27.6.2025 kl. 05:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband
OSZAR »